154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[10:46]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það hlaut að koma að því: Reykjavíkurborg er komin inn í salinn. Til að byrja með vil ég taka fram að við höfum ekkert á móti einstökum hagræðingaraðgerðum. Heldurðu að Samfylkingin setji sig eitthvað upp á móti hagkvæmari innkaupum, minni rekstrarkostnaði almennt, að hún vilji að það sé óþarfastarfsfólk einhvers staðar í efstu lögum? Það höfum við ekki gert. Það sem við erum einmitt að halda fram er að þetta er ekki pólitísk stefna, þetta ætti að vera bara eilífðarverkefni ríkisins. Þetta er ekki eitthvað til að tromma með upp á mörgum blaðamannafundum. Það er engin pólitík í því að reka hlutina vel. Við erum að reyna að tala um pólitískar áherslur, skatta, hvernig þú fjármagnar velferðarkerfið. Ekki hagræðingu í tölvukerfum. Það geta allir tekið undir það.

Varðandi stöðuna í Reykjavík. Við gætum átt langar samræður um tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga um vanfjármögnun málaflokks fatlaðs fólks. Við getum líka horft á skuldatölur í nágrannasveitarfélögum. Við getum horft á rekstraryfirlit í öðrum sveitarfélögum sem eru að detta inn þannig að við vitum vel að staðan sem er uppi í Reykjavík varðandi leikskólamálin er ekki bara tengd stöðunni í Reykjavík heldur almennt stöðu sveitarfélaganna sem ríkið hefur mikið um að segja.